Hvað er streita?
- Bára Einarsdóttir
- Jan 4
- 4 min read

Streita er hugtak sem flestir kannast við en fæstir skilja til fulls. Við notum orðið gjarnan til að lýsa því þegar við erum undir miklu álagi eða finnum fyrir vanlíðan, en hvað er streita í raun og veru?
Í grunninn er streita eðlilegt og lífsnauðsynlegt viðbragð líkamans sem hjálpar okkur að takast á við hættur og áskoranir. Hún hefur fylgt okkur frá örófi alda og er hluti af því þróunarferli mannsins sem hefur tryggt að við lifum af sem tegund. Í nútíma samfélagi hefur streitan hins vegar orðið flóknari og sífellt meira viðvarandi en henni er ætlað.
Eðlislægt viðbragð líkamans – Að berjast eða flýja
Þegar við skynjum ógn – hvort sem um er að ræða raunverulega hættu, álag eða erfiðar hugsanir – fer af stað keðjuverkun í líkamanum sem er hönnuð til að vernda okkur. Þessi viðbrögð kallast „flótta eða bardagaviðbragð“ (e. fight or flight) og eiga rætur að rekja til frumþarfa okkar sem tegundar. Þau eru ekki aðeins lífeðlisfræðileg heldur stýrast þau einnig af hugrænum þáttum, eins og því hvernig við túlkum aðstæður.
Heilinn skynjar hættu og sendir á augabragði boð til nýrnahettanna sem losa streituhormónin adrenalín og kortisól. Þessi hormón undirbúa líkamann til að takast á við hættuna með því að:
Auka hjartslátt: Svo blóð berist hraðar til vöðva.
Dýpka öndun: Til að fá meira súrefni.
Minnka meltingarstarfsemi: Svo orka nýtist betur í átökin.
Skerpa einbeitingu: Svo við verðum snögg að bregðast við.
Þessi viðbrögð voru lífsnauðsynleg fyrir forfeður okkar, sem jafnvel þurftu að flýja rándýr eða berjast fyrir lífi sínu. Vandamálið í dag, hins vegar, er að heilinn gerir engan greinarmun á raunverulegri hættu og því álagi sem við upplifum í daglegu lífi s.s. í vinnu eða fjölskyldulífi. Hann greinir heldur ekki á milli raunverulegrar hættu og okkar eigin erfiðu hugsunum eða áhyggjum – hann tekur allar hugsanir bókstaflega. Ef hugsun gefur til kynna ógn, fer streituviðbragðið af stað, alveg eins og ef raunveruleg hætta væri til staðar. Þannig losar líkaminn streituhormón eins og adrenalín og kortisól, jafnvel þó ógnin sé ekki lífshættuleg.
Streita sem hormónaviðbragð líkamans
Streita er fyrst og fremst hormónaviðbragð í líkamanum. Hún stýrist af heiladingli, sem örvar nýrnahetturnar til að losa adrenalín og kortisól. Þessi hormón hafa síðan mikil áhrif á líkamann, bæði í skammtímaástandi og þegar streitan verður langvarandi.
Adrenalín: Vekur líkamann til viðbragða með því að auka hjartslátt, blóðflæði og orkubirgðir.
Kortisól: Hjálpar líkamanum að viðhalda þessum ástandi yfir lengri tíma, en of mikið kortisól getur haft neikvæð áhrif, eins og að veikja ónæmiskerfið, trufla svefn og auka blóðþrýsting.
Þegar streitan er tímabundin og líkaminn fær tækifæri til að jafna sig, er hún ekki skaðleg. Vandinn skapast þegar streitan verður viðvarandi og líkaminn heldur áfram að losa kortisól í óeðlilega miklu magni. Þetta viðvarandi ástand getur haft alvarleg áhrif á heilsuna, bæði líkamlega og andlega. Langvarandi streita veldur oft þreytu og orkutapi, truflar meltingarkerfið og getur leitt til minnistruflana og langvinnra svefnvandamála. Hún veikir einnig ónæmiskerfið, sem gerir okkur viðkvæmari fyrir sjúkdómum, auk þess sem hún eykur hættuna á kvíða og þunglyndi. Þegar líkaminn er stöðugt í streituástandi byrjar hann auk þess að tapa hæfni sinni til að jafna sig og ná eðlilegri endurheimt, það getur síðan valdið vítahring sem erfitt er að brjótast út úr.
Að skilja hvernig streitan virkar og hvaða áhrif hún hefur á líkamann er fyrsta skrefið í að rjúfa vítahring hennar. Þessi meðvitund breytir hugarfari okkar og veitir hvatningu til að taka nauðsynleg skref í átt að betri streitustjórnun og ná jafnvægi á ný – sem er grundvöllur góðrar heilsu og vellíðunar.
Streitan í nútímanum
Í dag erum við sjaldan að flýja rándýr en lifum engu að síður í umhverfi sem ýtir mjög undir viðvarandi streitu. Streitan kemur ekki aðeins úr vinnu og daglegum verkefnum heldur einnig frá samfélagsmiðlum, samskiptum, fjármálum eða ýmiskonar áhyggjum svo fátt eitt sé nefnt. Líkaminn fer þá í viðvarandi streituham sem með tíð og tíma getur haft alvarleg áhrif á heilsu okkar ef við grípum ekki inn í.
Hvað getum við gert?
Sem betur fer er streita ekki óyfirstíganleg og raunverulega ekki svo flókið að takast á við hana – sérstaklega ekki ef gripið er inn í nógu snemma. Með því að skilja hvað streita er og hvernig hún virkar í líkamanum getum við lært að takast á við hana og skapað okkur forsendur svo hún verði ekki eins ráðandi í lífi okkar.
Slökunaræfingar og djúpöndun: Draga úr adrenalín- og kortisólmagni og koma líkamanum aftur í jafnvægi.
Hreyfing: Styður við hormónajafnvægi og bætir getu líkamans til að takast á við streitu. Þó ber að hafa í huga að ef streitan er mjög há þá hentar róleg hreyfing eins og sund, jóga eða göngur betur, þar sem of áköf hreyfing getur ýtt undir streituviðbragðið.
Svefn og næring: Styðja líkamann í að jafna sig eftir álag.
Að þekkja eigin streituvalda: Veitir okkur stjórn á því sem við getum breytt og hvenær við þurfum að leita hjálpar.
Þó ímynd streitu sé oft neikvæð, er hún í raun mikilvægt og eðlilegt viðbragð sem hefur þjónað okkur í gegnum aldirnar. Hún er alls engin óvinur, heldur hluti af varnarkerfi líkamans. Vandinn liggur miklu frekar í því hvernig við höndlum hana í nútímanum þar sem streita verður oft viðvarandi. Með réttu viðhorfi, þekkingu og verkfærum getum við hins vegar lært að stjórna streitunni, skapa jafnvægi og lifað heilbrigðu og fullnægjandi lífi.
Að ná tökum á streitustjórnun er lífsbreytandi fyrir fólk – það er lykillinn að vellíðan, betri samskiptum og meiri afköstum. Lærðu að skilja streituna og stjórna henni áður en hún nær tökum á þér. Þannig tekur þú fyrsta skrefið í átt að streituminnalífi, betra jafnvægi og meiri vellíðan.
Bára Einarsdóttir, streituráðgjafi.







Comments