Er persónuleg sjálfbærni besta markmiðið á nýju ári?
- Bára Einarsdóttir
- Dec 31, 2025
- 3 min read

Áramót eru tími uppgjörs og nýrra áforma. Margir setja sér stór áramótaheit s.s. að hreyfa sig meira, borða betur, verða skilvirkari eða jákvæðari. Allt eru þetta góð markmið. En fyrir marga verða áramótaheitin hins vegar fljótt að enn einni kröfunni í þegar allt of krefjandi lífi.
En hvað ef þetta yrði öðruvísi í ár? Í stað þess að auka álagið myndir þú draga úr því.
Streita er ekki óvinurinn
Streita er ekki veikleiki og alls ekki merki um að eitthvað sé að þér, heldur þvert á móti. Streita er fyrst og fremst eðlilegt hormónaviðbragð líkamans við álagi og áskorunum. Hún hjálpar okkur að bregðast við, einbeita okkur og standa okkur þegar á þarf að halda. Vandinn skapast hins vegar þegar streituviðbragðið er stöðugt virkt. Þegar við fáum ekki næga hvíld og líkaminn fær ekki þá endurheimt sem hann þarf á að halda. Þá hamast hann við að senda okkur skilaboð. Þreyta, pirringur, einbeitingarskortur, svefntruflanir og líkamleg einkenni eru því ekki bilun í kerfinu okkar heldur viðvörunarljós og ábending um að draga úr álaginu.
Um áramót þegar mörg okkar endurskoðum málin og leggjum drög að nýju og enn betra ári er góður tími til að staldra við og spyrja sig: er ég að hlusta á þessi skilaboð?
Ekki bíða eftir að allt fari í óefni
Flestir bíða með að leita sér aðstoðar þangað til streitan er orðin mjög há og fólk farið að finna fyrir miklum einkennum og vanlíðan. Þá er orkuleysið oft orðið viðvarandi, þolinmæðisþráðurinn mjög stuttur, þú finnur að þú hefur ekki fulla stjórn og gleðin er gjarnan horfin. En þú þarft ekki að bíða eftir alvarlegum einkennum eða vera á barmi kulnunar til að bregðast við.
Að stíga snemma inn og taka streituna alvarlega er ein besta fjárfesting sem þú getur gert í heilsu þinni, lífsgæðum og starfsgetu til framtíðar. Það er svo ótalmargt sem þú getur gert til að takast á við hana og það er ekki eins erfitt og þú heldur því smáar breytingar og einfaldar leiðir geta haft mikil áhrif.
Sjálfbærni í eigin lífi
Í stað stórra áramótaheita vil ég bjóða þér að hugsa í átt að persónulegri sjálfbærni. Að lifa og starfa á þann hátt að þú haldir heilsu, orku og jafnvægi til lengri tíma.
Það snýst ekki um að gera allt fullkomlega heldur að læra að:
þekkja eigin streituvalda
skilja og taka eftir fyrstu merkjum líkamans
skapa rými fyrir ró og endurheimt
setja raunhæf mörk
og leita sér stuðnings þegar þörf er á
Þetta er ekki nein umbylting heldur meðvitaðar ákvarðanir í daglegu lífi – teknar aftur og aftur.
Fimm spurningar inn í nýtt ár
Hugleiddu eftirfarandi spurningar ef þú vilt hefja nýtt ár með meiri meðvitund um streitu þína og vellíðan:
Hvenær finn ég helst fyrir streitu í daglegu lífi eða vinnu?
Hvaða merki sendir líkaminn mér þegar álagið er orðið of mikið?
Hvað get ég gert örlítið öðruvísi á nýju ári til að hugsa betur um mig?
Hvað í lífi mínu gefur mér orku – og hvað tekur hana?
Hvar gæti ég þurft stuðning – og hver gæti veitt hann?
Þú þarft alls ekki að leysa þetta allt, veldu til að byrja með bara eitt atriði sem þú veitir meiri athygli á næstu vikum. Raunverulegar breytingar verða sjaldnast til með einu stóru átaki heldur gerast þær til í litlum skrefum yfir lengri tíma með aðgerðum sem eru endurteknar aftur og aftur.
Þú gætir þurft að hvíla þig betur, velja hreyfingu sem hentar þér, tala opinskátt við einhvern um líðan þína, skoða forgangsröðun í vinnu og einkalífi eða leita þér faglegrar aðstoðar. Það er í raun sama hvaða leið þú velur, hvert og eitt skref skiptir máli. Aðalatriðið er að horfast í augu við málin og velja að takast á við þau.
Streitustjórnun er ekki flókið fyrirbæri og hún krefst ekki eins mikils og þú kannt að halda. En fyrsta skrefið er alltaf að viðurkenna stöðuna fyrir sjálfum sér. Að átta sig á því að stuðningur getur verið hjálplegur og leyfa sér að láta leiða sig áfram þar til betra jafnvægi hefur náðst. Þá verður eftirleikurinn mun einfaldari og auðveldara að halda áfram á eigin forsendum.
Nýtt ár – ný tækifæri
Áramót eru ekki töfrastund þar sem allt breytist. En þau geta verið tækifæri til að stoppa, horfa inn á við og velja að gera hlutina aðeins öðruvísi. Ekki af því að þú eigir að verða betri útgáfa af sjálfum þér, heldur af því að þú átt skilið að þér líði betur.
Ef 2026 yrði árið þar sem þú hlustar fyrr á streituna, bregst fyrr við og byggir upp meiri jafnvægi og sjálfbærni í eigin lífi, þá gæti það orðið ein besta og mikilvægasta ákvörðun fyrir þig og þína vellíðan.
Gleðilegt nýtt ár.
Bára Einarsdóttir, streituráðgjafi.







Comments