Hvað er streita?
Streita er tilfinning sem við upplifum öll af og til. Stundum sem álag og stundum sem hvatningu til að takast á við verkefni, erfiðar aðstæður eða til að ná einhverju innan ákveðins tímarama. Það er hins vegar þegar streitan verður of mikil eða of langvarandi að hún fer að hafa neikvæð áhrif á líf okkar og heilsu. Þá getur það sem áður var hvetjandi orðið byrði og skapað erfiðleika í lífi okkar.
​
Eðlilegt viðbragð
​Streita er náttúrulegt viðbragð líkamans við hættu, álagi eða krefjandi aðstæðum og getur myndast bæði við andlegt, líkamlegt eða tilfinningalegt álag. Um er að ræða ferli í líkamanum sem miðar að því að gera okkur hæfari til að takast á við aðkallandi ógnir. Þannig myndast streituviðbragðið þegar hormónarnir adrenalín, noradrenalin og kortísól flæða út í líkamann, virkja öll skilningarvit og undirbúa okkur líkamlega og andlega undir að takast á við átök eða álag. Þetta viðbragð, oft kallað að berjast eða flýja viðbragðið (e. fight or flight response) er frumstæð hvöt hjá bæði mönnum og dýrum til að verjast hættum. Að berjast þegar þess er þörf eða flýja þegar svo ber við. Streita er því bæði náttúrulegt og eðlilegt viðbragð líkamans sem hefur þann jákvæða tilgang að hjálpa okkur að takast á við áskoranir og ógnir í lífi okkar.
​​
Frummaðurinn
Áður fyrr gerði þetta frummanninum kleift að forða sér t.d. frá árás rándýra en í dag er streita mun huglægari. Sú streita sem við upplifum í dag er oftast ekki vegna beinnar ógnar heldur tilkomin vegna mikils álags eða krafna sem við eigum erfitt með að standa undir.
​
Streita skilgreind
Það er ekki til nein algild skilgreining á streitu sem allir eru sammála um og streita er heldur ekki skilgreind sem sjúkdómur. Streita er því almennt hugtak yfir hvernig við upplifum sálræn og líkamleg viðbrögð við álagi, kröfum eða aðstæðum sem við teljum ógnandi eða eigum erfitt með að stjórna.
Er streita skaðleg?
Almennt séð er streita sem við upplifum til skamms tíma ekki skaðleg, jafnvel þó hún standi yfir í 2-3 vikur, slík streita hverfur gjarnan við hvíld eða góðan nætursvefn. (hér er ekki verið að tala um skyndilega mikla streitu sem verður t.d. vegna slyss, dauðfalls, árásar eða slíks skyndiáfalls.) Það er hins vegar þegar streitan er orðin langvarandi að hún fer að hafa neikvæð áhrif á okkur og getu okkar til að takast á við aðstæður. Standi hún yfir í marga mánuði eða jafnvel mörg ár þá fer hún að hafa virkilega neikvæð áhrif á líf okkar og vellíðan.​
Hversdagsstreita
Það upplifa allir streitu í lífinu, annað er óhjákvæmilegt, við tengjum hins vegar ekki alltaf við það eða áttum okkur á hver streituvaldurinn er. Sé streitan mikil finnum við fyrir henni en hversdagsstreitan, þ.e. öll þessi litlu daglegu atvik sem kveikja á streitukerfinu okkar, á það til að fara fram hjá okkur.
Hversdagsstreitan er jafnvel orðin svo eðlilegur partur af lífi okkar og líðan, að við kunnum að skynja hana sem heilbrigt ástand – sem hún er alls ekki. Þess vegna er svo mikilvægt að við áttum okkur á streitueinkennum okkar, hvernig þau birtast í líkamanum og hvað veldur þeim, því þá getum byrjað að takast á við streituna. Það er í raun skilningurinn á þessu og hvernig við bregðumst við streituvöldunum sem skiptir mestu máli fyrir vellíðan okkar.
Hver eru helstu einkenni streitu?
Streita er afar huglæg og ekki mælanleg með prófum jafnvel þó hún birtist í líkamlegum einkennum. Það er í raun aðeins sá sem upplifir streitu sem getur sagt fyrir um hvort hún sé til staðar og hvernig hún birtist.
Einkenni streitu eru því mjög mismunandi á milli manna og byggja m.a. á því hver við erum, hvaða reynslu við höfum, hvernig við bregðumst við álagi og hvað við höfum gert til að efla streituvarnir okkar.
Eftirfarandi er ekki tæmandi listi en yfirlit yfir algeng einkenni:
L
Líkamleg einkenni
streitu
-
Þreyta og orkuleysi.
-
Aukinn hjartsláttur, hjartsláttarónot.
-
Aukin svitamyndun.
-
Óútskýrðir verkir og óþægindi.
-
Vöðvaspenna.
-
Höfuðverkur.
-
Munnþurrkur, kyngingarörðugleikar.
-
Magavandamál, meltingartruflanir.
-
Minnistruflanir.
-
Hnútur í brjósti eða maga.
T
Tilfinningaleg einkenni streitu
-
Pirringur og reiði.
-
Áhyggjur, kvíði og ótti.
-
Vonbrigði eða depurð.
-
Svartsýni og neikvæðar hugsanir.
-
Efast um eigið ágæti, talar sig niður.
-
Brestur í grát af minna tilefni en áður.
-
Minnkandi sjálfstraust eða sjálfsálit.
-
Finnast hlutir vera sér ofviða.
-
Upplifun um að missa stjórn.
-
Minni kynþörf.
H
Hegðunartengd einkenni streitu
-
Óþolinmæði.
-
Geðsveiflur, ójafnvægi, geðvonska.
-
Varnarhegðun.
-
Mistúlkun á aðstæðum.
-
Einbeitingarörðugleikar.
-
Smámunasemi, festist í smáatriðum.
-
Hreyfir sig minna.
-
Svefnörðugleikar, breyttar svefnvenjur.
-
Minnkuð félagsþörf - forðast jafnvel samveru við vini og fjölskyldu.
-
Aukin neysla örvandi efna (s.s. koffín, áfengi, lyf, sígarettur).
Streituvaldar og orsakir streitu
Fyrsta skrefið í að taka ábyrgð og ná stjórn á streitu er að skilja hvað það er sem er að veldur streitunni en orsakir streitu geta bæði verið margvíslegar og einstaklingsbundnar. Í sinni einföldustu mynd má segja að orsök streitu eða streituvaldur sé atburður eða aðstæður sem leiðir af sér framleiðslu streituhormóna, þ.e. virkja varnarviðbrögð líkamans og fær líkaman til að bregðast við.
​
Það er ekki auðvelt að flokka streituvalda og skilin á milli flokka eru mjög fljótandi og samofinn en oft er talað um eftirfarandi flokka:
​
-
Utanaðkomandi streita – Streita tengd vinnu og vinnuumhverfi, skóla og námi, fjármálum, fjölskylduaðstæðum, hjónabandserfiðleikum, ástvinamissis, erfiðleika vegna barna eða foreldra, samskiptaerfiðleika, hættum í umferðinni o.s.frv.
-
Innri streita – Streita sem myndast vegna tilfinninga okkar s.s. vegna ótta, kvíða, pirrings, reiði, höfnunartilfinninga, mikilla væntinga, sterkra skoðana, óöryggis eða því að hafa ekki stjórn o.s.frv.
-
Álagsstreita – Streita sem myndast vegna uppsafnaðrar þreytu, mikillar spennu, langvarandi álags, svefnskorts o.s.frv.
Það er hins vegar alveg sama hver streituvaldurinn er, svörun líkamans og streituviðbrögðin eru alltaf byggð á sama grunni, þ.e. á varnarviðbrögðum og varnarkerfi líkamans.
Til að takast á við streituna og draga úr þessum viðbrögðum er því nauðsynlegt að skilja hvað það er sem veldur eigin streitu og hvaða viðbrögð líkaminn sýnir, þ.e. hvaða einkenni upplifir þú.
Streitustjórnun og streituvarnir
Streitustjórnun snýst um að takast betur á við álag, erfiðleika eða mótlæti í lífinu til að geta upplifað meira jafnvægi og heilbrigðara líf. Þar sem orsakir streitu eru svo margvíslegar og einstaklingsbundnar er ekki til nein ein einföld leið til að takast á við hana. Streitustjórnun byggist því á því að þekkja eigin streituvalda eða kveikjur, fá verkfæri og öðlast færni í að takast betur á við krefjandi aðstæður sem og að finna leiðir til að einfalda, breyta eða forðast streituvaldandi aðstæður. Þar getur skipt sköpum að stíga nógu snemma inn, því fyrr sem þú tekst á við vandann því auðveldara er að vinna með hann.
Ávinningur þess að læra streitustjórnun:
-
Betri tengsl við annað fólk.
-
Betri hæfni til að bregðast við aðstæðum og að hafa stjórn á eigin lífi.
-
Aukin færni í að takast á við erfiðleika og vandamál.
-
Skilvirkari úrvinnsla mála, betri forgangsröðun verkefna og betri tímastjórnun.
-
Markmið þín og tilgangur verða skýrari og þú lærir leiðir til að fylgja þeim eftir.
-
Þú lærir leiðir til að virkja sefkerfi líkamans og upplifir ró og yfirvegun.
-
Tilfinningar eins og þakklæti og bjartsýni styrkjast.
Stjórn á eigin lífi
Þegar þú lærir að takast á við streitu nærðu jafnvægi og stjórn á eigin lífi. Þér verður ekki stýrt af utanaðkomandi aðstæðum eða af þínum innri „harðstjóra“, heldur tekur þú meðvitaða stjórn á lífi þínu byggða á þínum forsendum. Að kunna að bregðast við í krefjandi aðstæðum og nýta verkfæri streitustjórnunar hjálpar þér einnig til framtíðar – það er fyrirbyggjandi aðgerð. Það mun auðvelda þér við val og ákvarðanatöku, efla sjálfstraust þitt og gera þér kleift að stýra lífi þínu svo þú upplifir meira jafnvægi, minna álag og betri lífsgæði til langs tíma litið.
Hvenær á að leita aðstoðar?
Stutta svarið er, því fyrr því betra, en það aldrei of seint að leita sér aðstoðar vegna streitu. Það er hægt að vinna með hana á öllum stigum en því fyrr sem stigið er inn því fyrr upplifir fólk jafnvægi og öðlast verkfæri til að fyrirbyggja frekari streitu í framtíðinni.
​
Afneitun vandans
Við höfum oft tilhneigingu til að afneita vandanum, finnast við hafa stjórn á aðstæðum eða höldum að við séum alveg að komast fyrir vind. Síðan heldur álagið og streitan áfram og fyrir rest nær hún tökum á okkur. Þá hefur vandinn undið upp á sig, vandamálið orðið stærra og umfangsmeira og er farið að hafa neikvæð áhrif á okkur andlega og líkamlega.
Það er þekkt staðreynd að langvarandi streita hefur neikvæð áhrif á líf okkar og heilsu og ef ekkert er að gert mun hún fyrr eða seinna segja til sín. Örmögnun og kulnun eru þekktar afleiðingar of mikillar og langvarandi streitu en streita ýtir einnig undir aðra líkamlega kvilla s.s. kvíða, þunglyndi, stoðkerfisvandamál, exem, mígreni, meltingartruflanir, bakflæði, hækkaðan blóðþrýsting, hjartsláttaróreglu og margt fleira. Óhófleg streita getur einnig leitt til alvarlegri kvilla eins og hjartaáfalls, heilablóðfalls eða jafnvel krabbameins.
Skilvirkari og öflugri í lífi og starfi
Að vinna sig út úr streitu er ákvörðun, ákvörðun um að setja sjálfan sig og heilsu sína í forgang. Þú þarft alls ekki að segja skilið við ábyrgðarmikið starf eða hverfa frá hlutverkum þínum eða þeim lífsstíl sem þú lifir. Þú þarft bara að læra að nálgast málin með öðrum hætti og með öðru hugarfari. Þannig getur þú orðið skilvirkari og öflugri í lífi og starfi og tryggt að líf þitt taki ekki stöðugan toll af þér og þinni vellíðan.