top of page
Search

Jólastressið – af hverju hrjáir það okkur og hvernig getum við tekist á við það?

Þessi grein birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. desember 2025

Morgunblaðið 15. desember 2025
Morgunblaðið 15. desember 2025

Jólin eiga að vera tími hlýju, samveru, gleði og friðar en fyrir mörg okkar verða þau að mesta álagstíma ársins. Jólastressið stafar ekki eingöngu af því að margt er að gera, heldur af því hvernig líkaminn bregst við öllum þeim kröfum sem jólin og undirbúningurinn leggja á okkur.

 

Streita er líffræðilegt viðbragð sem virkjast þegar heilinn skynjar álag og setur í kjölfarið af stað framleiðslu streituhormóna eins og kortisóls og adrenalíns. Þetta gerist óháð því hvort álagið er raunverulegt eða huglægt, heilinn bara bregst við því sem hann telur vera ógn. Þegar streituviðbragðið er virkjað dag eftir dag fer líkaminn að gefa merki um að álagið sé orðið of mikið og að hann sé kominn í ójafnvægi. Þess vegna upplifa margir þreytu, pirring, svefntruflanir og skerta einbeitingu þegar nær dregur jólum.

 

Rót jólastressins er samspil margra þátta. Við berum oft hugmyndir um hin fullkomnu jól, að skapa yndislega stemningu, elda einstaklega góðan mat, kaupa vel ígrundaðar gjafir og gleðja alla. Þessar væntingar, sem oftast eru ómeðvitaðar, verða að ósýnilegum þrýstingi sem magnar streitu.

 

Við þetta bætast svo félagslegar og fjárhagslegar kröfur. Desember fyllist af boðum og uppákomum, undirbúningi og kostnaði sem getur orðið að verulegi álagi. Fjárhagsáhyggjur, sem margir finna fyrir á þessum tíma, ýta svo enn frekar undir streituna.

 

Breytt rútína spilar líka stórt hlutverk. Við sofum minna, hreyfum okkur minna, borðum oft meira eða óreglulega og tökum okkur minni hvíld. Þegar líkaminn fær ekki þá hvíld og endurheimt sem hann þarf verða streituhormónin ráðandi og við verðum viðkvæmari fyrir öllu áreitinu sem fylgir jólunum.

 

Þá er mikilvægt að hafa í huga að jólastressið snýst ekki eingöngu um verkefni og ábyrgð. Fyrir marga er desember einnig tími tilfinningalegs álags. Einmanaleiki verður áþreifanlegri þegar samfélagið talar um samveru. Söknuður og sorg vegna missis eða breyttra fjölskylduaðstæðna getur orðið sterkari og samskiptaerfiðleikar geta magnast við auknar væntingar og náið samneyti. Þessi þáttur jólastressins er oft hulinn, en hann er stór og raunverulegur streituvaldur sem skiptir máli að nefna.



Hvernig getum við tekist á við jólastressið?

Þó jólastressið sé margþætt er margt sem við getum gert til að skapa meiri ró í kringum jólin.

 

Stjórnaðu væntingum – bæði eigin og annarra.

Spurðu þig: „Hvað skiptir raunverulega máli um jólin?“ Með því að forgangsraða og sleppa hinu óþarfa minnkar álagið og rými myndast fyrir nærandi samveru.

 

Skipuleggðu tímann og verkefnin.

Að koma hlutum niður á blað dregur úr óvissu, en óvissa er ein helsta uppspretta streitu. Legðu áherslu á það sem virkilega þarf að gera og leyfðu öðru að bíða eða reyndu að einfalda það.

 

Settu mörk, segðu „nei“ þegar þú þarft þess.

Færri viðburðir þýða oft meiri nærvera með þeim sem skipta þig mestu máli. Það er í lagi og oft nauðsynlegt, að velja það sem skapar ró í stað þess að mæta skylduverkum sem tæma orkuna.

 

Hugsaðu um líkamann, hann ber þig í gegnum jólin.

Jafnvel litlir hlutir skipta máli: Stuttar gönguferðir, reglu­legar máltíðir eða klukkutíma fyrr í háttinn getur hjálpað þér að halda góðu jafnvægi.

 

Viðurkenndu tilfinningar eins og einmanaleika eða sorg.

Ef jólin vekja upp erfiðar minningar eða sorg er mikilvægt að leyfa þeim tilfinningum að vera til. Að ræða við einhvern sem þú treystir eða jafnvel að skapa nýja hefð tengda missinum getur verið léttir og dregið úr spennu.

 

Einfaldaðu málin þar sem þú getur.

Það þarf ekki að baka allt, útbúa allt eða pakka öllu fullkomlega inn. Að minnka umfangið getur dregið út álaginu og aukið gleðina. Stundum verða bestu jólin þau sem eru einföldust.

 

Einbeittu þér að því sem þú getur haft áhrif á.

Við getum ekki stjórnað öðrum eða hvernig aðstæður þróast en við getum valið hvernig við bregðumst við. Viðhafðu jákvætt hugarfar og beindu athygli þinni að eigin mörkum, gildum og viðbrögðum, þannig skapar þú þér meira jafnvægi.

 

Andaðu, hægðu á þér og taktu pásur.

Að komast í jafnvægi snýst um að heilinn upplifi að engin ógn sé til staðar. Djúpöndun og stutt slökun eru áhrifaríkar leiðir til að senda líkamanum skýr skilaboð um að allt sé í lagi. Nokkrir djúpir andardrættir eða jafnvel bara tveggja mínútna slökun geta róað taugakerfið og skapað meiri innri ró. Þegar við gefum okkur smá rými til að hægja á okkur og hlusta á líkamann verður jafnframt auðveldara að sjá jólin í réttu ljósi.



Jólastreita er ekki veikleiki

Að upplifa jólastreitu er ekki veikleiki heldur eðlilegt viðbragð líkamans við auknum kröfum, væntingum og tilfinningalegu álagi. Með því að átta okkur á hvað kveikir á streituviðbragðinu okkar og beita einföldum, markvissum aðferðum til að bregðast við því, getum við dregið úr álaginu og skapað jól sem byggja á jafnvægi og nærandi samveru. Þegar við hlúum að okkur sjálfum eru við betur í stakk búin til að takast á við álag auk þess sem við eigum betra með að skapa gleðileg jól fyrir þá sem standa okkur næst.



Bára Einarsdóttir, streituráðgjafi.



 
 
 

Comments


Streita og streitustjórnun

Stórhöfða 21, 2. hæð

110 Reykjavík

Sími: 778-0775 

Netfang: streita@streita.is

  • Facebook
  • Instagram
  • LinkedIn

Streita.is © 2024  |  Allur réttur áskilinn

BE Ráðgjöf ehf., kt: 631121-0710, VSK númer: 143045

bottom of page