top of page
Search

Hvað er streita?

Streita er viðbragð sem eykst með álagi og birtist með ólíkum hætti. Hún getur þróast í stigum ef álag er viðvarandi og endurheimt skortir og leitt til alvarlegra veikinda ef ekki er brugðist við í tíma.
Streita er viðbragð sem eykst með álagi og birtist með ólíkum hætti. Hún getur þróast í stigum ef álag er viðvarandi og endurheimt skortir og leitt til alvarlegra veikinda ef ekki er brugðist við í tíma.

Streita er oft misskilið hugtak því í daglegri notkun nær hugtakið yfir ólíka hluti. Annars vegar er um að ræða almenna streitu sem við upplifum í daglegu lífi, þ.e. hversdagsstreitu sem kemur og fer. Hins vegar getur streitan orðið langvinnari og alvarlegri, þannig að við verðum haldin streitu. Og loks er það alvarlegasta formið, þegar við erum orðin veik af streitu. En hvað er þetta sem við köllum streita?



Streita er eðlilegt náttúrulegt viðbragð 

Streita er fyrst og fremst náttúrulegt viðbragð líkamans við hættu, álagi eða krefjandi aðstæðum – algerlega ósjálfrátt ferli sem á sér stað hjá öllu fólki. Þegar heilinn skynjar ógn, hættu eða aðstæður sem hann metur erfiðar viðureignar, virkjar hann streitukerfið. Þá fer af stað ferli þar sem líkaminn losar streituhormón á borð við adrenalín og kortisól. Tilgangur þessa ferlis er að undirbúa okkur til að takast á við aðstæðurnar þannig að við getum barist eða flúið.

 

Streita er afar frumstætt og lífsnauðsynlegt kerfi sem er sameiginlegt bæði mönnum og dýrum og getur myndast við líkamlegt, andlegt eða tilfinningalegt álag. Áður fyrr gerði þetta kerfi forfeðrum okkar kleift að forða sér frá líkamlegri hættu, til dæmis árás rándýra. Í dag er streita hins vegar oftast mun huglægari. Hún tengist síður beinni líkamlegri ógn heldur frekar álagi, kröfum og aðstæðum sem við upplifum að við ráðum illa við eða fáum ekki nægilegt svigrúm til að jafna okkur á.

 

Í sinni einföldustu mynd er streita því eðlilegt lífefnafræðilegt ferli sem á sér stað hjá öllu fólki og er merki um að líkaminn sé að reyna að aðstoða okkur við að takast á við krefjandi aðstæður. Það er því mikill misskilningur að líta á streitu sem veikleika, vanhæfni til að takast á við aðstæður eða skort á persónulegu þoli. Þvert á móti er gott streitukerfi styrkleiki og órjúfanlegur hluti þess að vera mannlegur.

 

 

Birtingarmyndir streitu

Þar sem streita er viðbragð en ekki ákveðið ástand, birtist hún á mismunandi hátt hjá okkur allt eftir aðstæðum, álagi og hversu lengi streitukerfið er virkt. Sama lífefnafræðilega ferlið liggur að baki, en áhrifin og upplifunin geta verið ólík eftir einstaklingum og eftir því hvort streitan er tímabundin eða langvarandi. Til að skilja streitu betur er því gagnlegt að greina á milli þess hvernig streita birtist í daglegu lífi, þegar hún verður langvinn og þegar hún í undantekningartilfellum leiðir til veikinda.


 

Hversdagsstreita – eðlileg og oft nauðsynleg

Hversdagsstreita er sú streita sem flest okkar upplifa reglulega. Hún tengist tímabundnu álagi, til dæmis verkefnum í vinnu, tímaskorti, ábyrgð eða breytingum. Daglegar athafnir og umhverfi virkja streitukerfi okkar reglulega yfir daginn með smá „innspýtingu“ streituhormóna. Streitan kemur og fer og líkaminn nær jafnvægi aftur þegar álagið líður hjá eða við fáum nægilega hvíld og endurheimt.


Í þessum aðstæðum er streitan ekki vandamál í sjálfu sér. Þvert á móti getur hún:

  • Aukið einbeitingu

  • Gefið aukna orku

  • Hjálpað okkur að leysa verkefni

 

Hversdagsstreita er því hluti af eðlilegu lífi og merki um virkt og heilbrigt streitukerfi.

 

 

Langvarandi streita – þegar jafnvægi næst ekki

Langvarandi streita er afleiðing þess að hafa upplifað of mikla hversdagsstreitu í of langan tíma, án þess að fá nægilega hvíld og endurheimt á milli. Langvarandi streita þróast yfir lengri tíma og yfirleitt þarf vikur eða mánuði af viðvarandi álagi áður en streitan flokkast langvarandi.

 

Í þessum aðstæðum helst streitukerfi líkamans virkt of lengi og jafnvægiskerfið fær ekki nægilegt svigrúm til að taka við. Þá fer líkaminn að senda skýr viðvörunarmerki um að álag og endurheimt séu ekki lengur í jafnvægi.

 

Algeng einkenni langvarandi streitu geta meðal annars verið:

  • Stöðug þreyta og orkuleysi sem hverfur ekki við hvíld

  • Svefntruflanir eða ófullnægjandi svefn

  • Líkamleg einkenni á borð við vöðvaspennu, höfuðverk eða verki

  • Minnkuð einbeiting og skert athygli

  • Pirringur eða aukin tilfinningaleg næmni

  • Stutt í tárin – grætur af minna tilefni en áður

 

Þessi einkenni eru boð frá líkamanum um að hann sé ekki að höndla aðstæður og þurfi meiri hvíld og endurheimt. Þegar við erum komin á þetta stig erum við því ekki lengur aðeins undir álagi, heldur í ástandi þar sem líkaminn á erfitt með að jafna sig sjálfur. Á þessu stigi er afar mikilvægt að grípa inn í, draga úr álagi og vinna markvisst að streitulosun og endurheimt. Í flestum tilfellum minnkar streitan aftur þegar streituvaldar hverfa, jafnvægi eykst og líkaminn fær tækifæri til að ná sér.

 

 

Alvarleg streita – bugun eða upplifun af „hruni“

Ef við erum haldin alvarlegri streitu í langan tíma, án þess að álagið minnki eða við náum nægilegri endurheimt, getur komið að því að líkaminn eða sálin segi stopp. Þá getum við orðið veik af streitu. Á þessu stigi ræður líkaminn ekki lengur við álagið og einkenni verða bæði áberandi og íþyngjandi. Í mörgum tilfellum leiðir þetta til þess að fólk þarf að stíga út úr daglegu álagi, til dæmis með veikindaleyfi.

 

Að veikjast af streitu gerist ekki skyndilega. Yfirleitt hefur einstaklingur verið í langvarandi ofálagi í mánuði eða jafnvel ár, þar sem streitukerfið hefur verið stöðugt virkt. Þegar hingað er komið eru þolmörkin oft orðin mjög lág og það þarf ekki nema lítið álag eða atvik til að ýta fólki yfir mörkin. Þá upplifir fólk gjarnan bugun eða tilfinningu um að „hrunið“ sé komið, þótt ferlið hafi verið lengi í aðsigi.

 

Á þessu stigi fara streitueinkenni að birtast skýrt á fleiri sviðum samtímis. Algeng einkenni sem fólk upplifir þegar það er orðið veikt af streitu eru meðal annars:

  • Einbeitingarskortur og minnisörðuleikar

  • Óútskýrðir verkir og óþægindi, t.d. í stoðkerfi

  • Meltingartruflanir og magavandamál

  • Versnun á undirliggjandi kvillum, t.d. exem eða öðrum sjúkdómum

  • Minnkuð félagsþörf, tilhneiging til að draga sig í hlé eða einangra sig

  • Aukin neysla örvandi eða deyfandi efna, svo sem koffíns, áfengis eða lyfja

  • Ágeng hegðun eða aukin reiði

 

Þessi einkenni eru skýr skilaboð frá líkamanum um að álag og endurheimt séu ekki lengur í jafnvægi. Þetta er alvarlegt ástand sem krefst þess að gripið sé markvisst inn í, bæði með því að draga úr álagi, vinna að streitulosun og styðja líkamlega og andlega endurheimt.

 

Með réttum stuðningi, fræðslu og viðeigandi verkfærum ná flestir góðum bata en bataferlið getur tekið tíma. Því fyrr sem gripið er inn í, þeim mun meiri líkur eru á að koma í veg fyrir að streitan þróist áfram í alvarleg veikindi.

 

 

Kulnun - eingöngu starfstengt fyrirbæri

Kulnun er ein tegund veikinda vegna streitu en mikilvægt er að átta sig á því að kulnun er skilgreind sem starfstengt fyrirbæri. Samkvæmt World Health Organization (WHO) er kulnun heilkenni sem er afleiðing langvarandi streitu á vinnustað sem ekki hefur tekist að ná stjórn á með árangursríkum hætti.1

 

Hún er því ekki bara ákafari tegund streitu, heldur afleiðing alvarlegrar og ómeðhöndlaðrar streitu sem tengist starfi og getur þróast þegar einstaklingur hefur verið haldinn slíkri streitu í langan tíma án nægilegrar hvíldar, endurheimtar eða raunverulegra breytinga á aðstæðum.

 

Í kulnun hefur líkaminn og taugakerfið í raun gefist upp á stöðugu álagi. Orkan er uppurin, streitueinkenni hverfa ekki lengur við hvíld eða slökun og fólk upplifir djúpstæða líkamlega, andlega og tilfinningalega örmögnun. Dagleg verkefni verða yfirþyrmandi og tilfinning um vonleysi eða vanmátt getur tekið yfir.

 

WHO skilgreinir kulnun út frá þremur víddum:

  • Orkuleysi eða djúpstæðri örmögnun

  • Andlegri fjarlægð frá starfi, neikvæðum viðhorfum eða tortryggni gagnvart starfinu

  • Minnkuðum afköstum og skertri starfsgetu

 

Þetta undirstrikar að kulnun er ekki almenn lýsing á miklu álagi eða þreytu, heldur afleiðing langvarandi og óleystra vinnuaðstæðna. Samkvæmt þessari skilgreiningu á hugtakið kulnun ekki að vera notað til að lýsa almennri streitu eða vanlíðan á öðrum sviðum lífsins.

 

Kulnun er í raun sjaldgæf og alls ekki óhjákvæmileg niðurstaða mikillar og langvarandi vinnustreitu. Í flestum tilfellum er hægt að grípa inn í mun fyrr og koma þannig í veg fyrir að ástandið þróist áfram. Ef kulnun hefur hins vegar myndast er nauðsynlegt að fá faglegan stuðning, taka á aðstæðum í vinnuumhverfi og byggja endurheimt markvisst upp yfir tíma.

 

 

Mikilvægi þess að skilja streitu til að bregðast við í tíma

Streita er ekki veikleikamerki heldur náttúrulegt viðbragð líkamans við álagi. Hún verður aðeins vandamál þegar álag er viðvarandi og endurheimt skortir. Með því að skilja hvernig streita birtist á mismunandi stigum getum við greint viðvörunarmerki fyrr og gripið inn í áður en streitan þróast áfram í alvarleg veikindi.


Í langflestum tilfellum er hægt að endurheimta jafnvægi tiltölulega fljótt með réttri fræðslu, stuðningi og markvissri streituúrvinnslu. Því fyrr sem við stígum inn, því auðveldari verður leiðin til baka.


Bára Einarsdóttir, streituráðgjafi.



Viljir þú fá nánari upplýsingar, ræða streituna þína eða hvernig ég gæti hjálpað þér í átt að minni streitu og betri líðan, hafðu samband á streita@streita.is og bókaðu frítt skuldbindingalaust símtal þar sem ég fer yfir málin með þér.



Heimild:

1) World Health Organization. Burn-out an occupational phenomenon. ICD-11.

 
 
 

Comments


Streita og streitustjórnun

Stórhöfða 21, 2. hæð

110 Reykjavík

Sími: 778-0775 

Netfang: streita@streita.is

  • Facebook
  • Instagram
  • LinkedIn

Streita.is © 2024  |  Allur réttur áskilinn

BE Ráðgjöf ehf., kt: 631121-0710, VSK númer: 143045

bottom of page