top of page
Search

Þegar tilfinningar valda streitu



Kona að kljást við tilfinningar sínar

Margir tengja streitu fyrst og fremst við annir og álag – langa „todo“ lista, oftroðið dagatal, of mörg verkefni og of lítinn tíma. En þó svo slíkt geti sannarlega valdið mikilli streitu þá gleymum við oft áhrifum eigin tilfinninga á streitukerfið okkar.



Líkamleg svörun við streitu

Þegar við upplifum ógn, raunverulega eða ímyndaða, sendir heilinn boð sem virkjar streitukerfi líkamans og býr okkur undir að takast á við aðstæður. Líkaminn framleiðir þá streituhormón eins og adrenalín og kortisól og gerir okkur líkamlega tilbúin til að berjast eða flýja: hjartsláttur eykst, vöðvar spennast, blóðflæði eykst til útlima og meltingin er sett á bið.


En þetta kerfi er alls ekki „gáfað“ og það virkjast alveg jafnmikið hvort sem um raunverulega hættu eða bara erfiðar hugsanir og tilfinningar er að ræða. Líkaminn gerir nefnilega engan greinarmun á raunveruleika og hugsunum. Þess vegna geta fjölmargar eðlilegar tilfinningar sem við göngum í gegnum dagsdaglega eins og reiði, kvíði, ótti eða sektarkennd, virkjað streitukerfið okkar.


Reiði:

Reiði er erfið tilfinning sem kveikir hratt á streitukerfi okkar. Líkaminn, sem gerir ekki greinarmun á raunverulegri hættu og hugsunum, heldur að ógn sé til staðar og bregst við samkvæmt því. Þannig getur reiði sem ekki fær útrás eða úrvinnslu – hvort sem hún er bæld niður, hunsuð eða geymd – valdið mikilli líkamlegri streitu og haldið streitukerfinu virku lengur en líkaminn þolir.


Þegar streitan safnast upp hefur hún svo áhrif á getu okkar til að stjórna tilfinningum og takast á við aðstæður á yfirvegaðan hátt. Við verðum viðkvæmari fyrir áreiti, óþolinmóðari og eigum það til að bregðast harkalega við – jafnvel með reiði. Þannig getur reiðin bæði verið orsök og afleiðing streitu.


Ef við gefum okkur ekki tíma til að vinna með reiðina, getur myndast vítahringur þar sem reiðin kveikir streitu – og streitan gerir okkur enn viðkvæmari fyrir reiði.


Kvíði:

Kvíði er lúmsk tilfinning sem getur tekið völdin án þess að við áttum okkur á því. Hann snýst oft um eitthvað sem gæti gerst – hugsanir um framtíðina, óvissu og að vera ekki tilbúin(n) fyrir það sem bíður. Líkaminn bregst síðan við þessum hugsunum eins og raunveruleg hætta sé til staðar og streitukerfið fer í gang, jafnvel þótt ekkert hafi enn gerst.


Ef kvíðinn fær að magnast og sitja lengi í líkamanum getur hann orðið að langvarandi streituástandi og haldið streitukerfinu stöðugt virku: Það gerir okkur enn móttækilegri fyrir meiri kvíða og þá er hringurinn byrjaður. Við förum að túlka hlutina sem hættulegri en þeir eru og bregðast við samkvæmt því.


Þannig getur kvíðinn bæði verið orsök og afleiðing streitu – og fest okkur í vítahring sem erfitt er að rjúfa.


Sektarkennd:

Sektarkennd er tilfinning sem snýst um það að hafa gert eitthvað rangt, ekki uppfyllt væntingar – eða einfaldlega ekki gert nóg. Hún er oft knúin áfram af kröfum sem við setjum á okkur sjálf: „Ég ætti að vera duglegri“, „Ég hefði átt að standa mig betur“, „Ég er að bregðast.“


Þessar hugsanir eru ekki saklausar – þær virkja streitukerfið alveg eins og ytra álag.


Þegar sektarkennd fær að krauma innra með okkur getur hún haldið streitukerfinu gangandi. Við finnum kannski ekki alltaf fyrir mikilli spennu í líkamanum, en upplifum stöðugt að við séum ekki nóg – og það eitt og sér heldur líkamanum í varnarstöðu.


Langvinn streita af völdum sektarkenndar getur síðan aukið enn frekar á sjálfsgagnrýni, vanmáttarkennd og jafnvel sjálfsásakanir. Þannig verður sektarkenndin bæði orsök og afleiðing streitu – og ef við gefum henni ekki gaum getur hún skapað vítahring þar sem við höldum áfram að skapa spennu því við fáum aldrei hvíld frá eigin kröfum.


Ótti:

Ótti er frumstæð tilfinning sem hefur það hlutverk að vernda okkur gegn hættu. Í dag er ótti okkar sjaldnast tilkominn vegna líkamlegs háska eða lífsháska – heldur frekar ótti við mistök, höfnun, gagnrýni eða að standast ekki væntingar. Þessi ótti virkjar hins vegar streitukerfið með sama hætti og alvarleg ógn – og líkaminn undirbýr sig fyrir að „berjast eða flýja“.


Þegar óttinn mótar hugsanir og hegðun getur hann haldið líkamanum í stöðugri viðbragðsstöðu. Við verðum spennt, á varðbergi og tilbúin að bregðast við – jafnvel þótt engin raunveruleg hætta sé til staðar.


Langvinn streita sem byggist á ótta gerir okkur enn viðkvæmari fyrir áreiti og dregur jafnvel úr getu okkar til að lesa í aðstæður með skýrum hætti. Í verstu tilfellum eykst óttinn enn frekar – og við festumst í vítahring þar sem óttinn kveikir streitu, og streitan magnar upp óttann.


Að taka eftir tilfinningunum – og bregðast við þeim

Tilfinningar eins og reiði, kvíði, sektarkennd og ótti eru ekki bara „óþægilegar“ eða „neikvæðar“ – þær eru líka boðberar. Þær segja okkur að eitthvað í lífi okkar sé úr jafnvægi.


Ef við hunsum þessar tilfinningar, eða reynum að bæla þær niður, getur líkaminn setið uppi með afleiðingarnar. Þá getur streitan byggst upp í líkamanum – jafnvel án þess að við tengjum hana við neina skýra orsök. Það getur verið bæði ruglingslegt og valdið vanlíðan.


Þess vegna er svo mikilvægt að taka eftir og greina tilfinningar sínar. Ekki til að dvelja í þeim eða falla í dramatík – heldur til að skilja hvað þær eru að reyna að segja okkur. Ef við gefum okkur tíma til að hlusta á eigin tilfinningar, getum við brugðist við á heilbrigðan hátt – með meðvitund, sjálfsmildi og vopni.


Innri friður byrjar á meðvitund

Að skilja hvernig streita og tilfinningar fléttast saman er lykillinn að því að brjóta upp vítahringinn. Þegar við förum að tengja punktana – sjá hvernig kvíði, reiði eða sektarkennd geta verið birtingarmynd streitu – þá sjáum við líka leiðina að meira jafnvægi, sjálfsmildi og skilningi á sjálfum okkur.


Við getum ekki stjórnað öllu sem gerist í kringum okkur. En við getum lært að hlusta á okkur sjálf, taka eftir því sem er að gerast innra með okkur – og velja hvernig við viljum bregðast við.


Streitumerki hvísla oftast áður en þau öskra. Með aukinni meðvitund getum við stígið inn fyrr – dregið úr spennu áður en hún nær yfirhöndinni og skapað meira jafnvægi í lífi okkar.


Streita er nefnilega alls ekki alltaf tilkomin vegna utanaðkomandi áreitis – heldur ekki síður af því hvernig okkur líður innra með okkur.



Bára Einarsdóttir,

Streituráðgjafi

 
 
 

Comments


Streita og streitustjórnun

Stórhöfða 21, 2. hæð

110 Reykjavík

Sími: 778-0775 

Netfang: streita@streita.is

  • Facebook
  • Instagram
  • LinkedIn

Streita.is © 2024  |  Allur réttur áskilinn

BE Ráðgjöf ehf., kt: 631121-0710, VSK númer: 143045

bottom of page