Uppsagnir – þegar stjórnendur skipta sköpum
- Bára Einarsdóttir
- Oct 21
- 2 min read

Þegar fyrirtæki standa frammi fyrir uppsögnum beinist athyglin oft að þeim sem missa starfið. Það er eðlilegt, enda er uppsögn bæði fjárhagslegt og tilfinningalegt áfall fyrir þann sem verður fyrir því. En áhrifin ná hins vegar miklu víðar. Þau sem sitja eftir finna einnig fyrir óöryggi, kvíða og spurningum eins og „Hvað verður um mig? Hvenær kemur að mér?“
Á þessu stigi verður stjórnandinn einn mikilvægasti þátturinn í því hvort streitan á vinnustaðnum magnast eða minnkar.
Hvernig stjórnendur geta dregið úr streitu eftir uppsagnir
Viðbrögð stjórnenda móta hvernig hópurinn vinnur úr áfallinu. Það skiptir ekki aðeins máli hvað er sagt – heldur einnig hvernig, hvenær og hversu oft.
1. Samskipti og gagnsæi
Skortur á upplýsingum eykur streitu. Því skýrari, opnari og reglulegri sem upplýsingarnar eru, því minna rými er fyrir óöryggi og orðróm. Ef öll svör liggja ekki fyrir er betra að segja hlutina beint – heiðarleiki og hreinskiptni draga úr kvíða.
2. Stuðningur fyrir báða hópa
Ef stuðningur beinist eingöngu að þeim sem missa starfið, upplifa þeir sem eftir sitja sig vanrækt. Því er mikilvægt að veita þeim einnig svigrúm til að tjá sig og vinna úr eigin óöryggi og tilfinningum.
3. Viðurkenning á tilfinningum
Starfsfólk þarf að finna að stjórnendur skilji að uppsagnir hafa djúpstæð áhrif og geta vakið tilfinningar eins og sorg, óöryggi og jafnvel reiði. Að viðurkenna þetta, leyfa umræðu og sýna samkennd byggir traust og minnkar streitu.
4. Sýnileiki og nálægð
Stjórnendur sem eru til staðar, sýnilegir, hlusta og fylgja málum eftir, draga úr óöryggi og spennu í hópnum. Þegar stjórnandi tekur þannig púlsinn á hópnum minnkar hættan á að streitan setji mark sitt á samskipti og menningu fyrirtækisins.
Hvað gerist ef stjórnendur stíga ekki inn?
Ef stjórnendur bregðast ekki við eða halda áfram eins og ekkert hafi í skorist getur neikvæðni og streita smám saman orðið hluti af vinnustaðarmenningunni. Það getur m.a. birst sem:
Viðvarandi óöryggi og kvíði.
Auknar fjarvistir og streitutengd veikindi.
Skert traust til stjórnenda.
Minni starfsánægja og aukin starfsmannavelta.
Þetta er raunverulegur kostnaður sem jafnvel kemur ekki fram fyrr en löngu eftir að uppsagnirnar sjálfar eru yfirstaðnar.
Hvað geta stjórnendur gert?
Haldið reglulega upplýsingafundi, jafnvel þó öll svör liggi ekki fyrir.
Ræðið opinskátt um tilfinningarnar – leyfið fólki að tjá sig og spyrja.
Leitið þjálfunar og fræðslu í streitustjórnun, sérstaklega ef þið berið ábyrgð á hópi sem gengur í gegnum uppsagnir.
Notið einföld verkfæri og æfingar til að hjálpa starfsfólki að draga úr spennu og endurheimta jafnvægi.
Stjórnendur sem styrkja hópinn
Uppsagnir eru alltaf erfiðar. Það hvernig stjórnendur leiða ferlið ræður því miklu um áhrifin á vinnustaðinn og hversu fljótt hann nær jafnvægi á ný.
Í starfi mínu sem streituráðgjafi sé ég aftur og aftur að þegar stjórnendur nálgast þessar aðstæður með varfærni, samkennd og heiðarleika þá dregur það úr neikvæðum áhrifum og styrkir jafnvel hópinn til framtíðar. Ef þú vilt fá frekari fræðslu eða stuðning fyrir stjórnendur og starfsfólk í tengslum við uppsagnir er velkomið að hafa samband.
Bára Einarsdóttir, streituráðgjafi.







Comments