Uppsagnir og áhrifin á þau sem eftir eru.
- Bára Einarsdóttir
- Oct 13
- 2 min read

Við heyrum reglulega af hópuppsögnum á Íslandi, í fjármálageiranum, hjá fjölmiðlum, í ferðaþjónustunni, orkufyrirtækjum og víðar. Þetta er gríðarlegt áfall fyrir þau sem missa vinnuna, en það hefur líka djúpstæð og oft vanmetin áhrif á þau sem eftir sitja.
Það er freistandi að hugsa: „Þau sem missa vinnuna þurfa að takast á við áfallið – en hin ættu að vera í lagi.“ En það er bara ekki þannig.
Hvað gerist hjá þeim sem sitja eftir?
💥 Áfall og óöryggi - Þau sem halda starfinu eru oft einnig í áfalli. Óvissan um framtíðina og spurningarnar um „hver verður næstur?“ skapa mikla streitu.
💥 Samviskubit - Margir upplifa svokallað „survivor’s guilt“ — samviskubit yfir að hafa sloppið, jafnvel þó það sé ekki á þeirra ábyrgð.
💥 Blendnar tilfinningar - Sum finna fyrir létti yfir að hafa ekki verið á listanum, en skammast sín svo kannski fyrir það. Þessar mótsagnarkenndu tilfinningar auka enn á innri spennu og streitu.
💥 Þögnin - Aðrir segja fátt. Ekki vegna kæruleysis, heldur einfaldlega vegna þess að þau vita ekki hvað þau eiga að segja við þá sem misstu vinnuna. Óttast jafnvel að segja eitthvað rangt eða særa.
Streita eftir uppsagnir er ekki einkamál
Það sem sameinar þessar upplifanir er streita. Streita sem nær bæði til þeirra sem missa vinnuna og þeirra sem halda henni. Og hér er mikilvægt að muna að streita er ekki einkamál einstaklingsins. Hún smitast inn í vinnustaðarmenninguna og hefur áhrif á samskipti, árangur, trúnað og framtíðarsýn.
Ef ekki er hugað að þessum málum getur óöryggi og ótti orðið að föstum hluta vinnustaðarins. Það getur dregið úr vellíðan starfsfólks, aukið veikindafjarvistir og haft neikvæð áhrif á árangur fyrirtækisins til lengri tíma.
Hvað geta vinnustaðir gert?
Köld rökvísi eða það að „halda áfram eins og ekkert hafi í skorist“ hjálpar ekki í svona aðstæðum. Þvert á móti eykur það á neikvæða upplifun þeirra sem sitja eftir.
Það sem þarf er:
✅ Samkennd og skilningur - að viðurkenna tilfinningar allra, bæði þeirra sem fara og þeirra sem eftir eru.
✅ Opin samskipti - að stjórnendur tali beint og skýrt um það sem hefur gerst og það sem fram undan er.
✅ Stuðningur og fræðsla - að bjóða upp á samtal, ráðgjöf og verkfæri til að takast á við álagið og streituna sem fylgir breytingunum.
Þetta snýst um persónulega sjálfbærni
Við tölum sífellt meira um sjálfbærni í atvinnulífinu, en það er ekki síður mikilvægt að huga að persónulegri sjálfbærni. Hvernig getum við sem einstaklingar og sem vinnustaðir tryggt að fólk hafi orku, jafnvægi og þol til að mæta áskorunum? Að takast á við streituna sem fylgir uppsögnum er hluti af því. Ekki bara fyrir einstaklinginn, heldur fyrir fyrirtækið allt.
Í starfi mínu sem streituráðgjafi sé ég aftur og aftur hversu miklu máli skiptir að fyrirtæki taki þetta alvarlega. Streitan sem fylgir uppsögnum getur haft langvarandi áhrif á vinnustaðamenningu ef ekki er gripið inn í. Mikilvægast er að mæta þessum aðstæðum með mannlegri nálgun, skilningi og stuðningi. Þannig verður auðveldara að fóta sig áfram, bæði fyrir þá sem missa vinnuna og þá sem sitja eftir.
Bára Einarsdóttir, streituráðgjafi
Mynd: Freepik







Comments