Svona veistu þegar streitan og álagið er orðið of mikið!
- Bára Einarsdóttir
- Mar 9
- 3 min read
Updated: Mar 10

Þó álag og streita séu eðlilegur hluti af daglegu lífi okkar, áttum við okkur ekki alltaf á því þegar líkaminn sendir okkur boð um að álagið sé of mikið. Við erum oft svo upptekin af verkefnum okkar og ábyrgð að við tökum ekki eftir viðvörunarmerkjum líkamans – þau eru jafnvel orðin okkur svo töm að við höldum að þau séu norm! Ef þessi merki hins vegar eru hunsuð til lengri tíma, fer álagið fyrr eða seinna að hafa áhrif á heilsu okkar og vellíðan.
Hvernig gerir líkaminn okkur viðvart?
Þegar við erum undir stöðugu álagi og streitu breytist líkaminn, og við förum að sýna einkenni eins og óþolinmæði, pirring eða kvíða. En streitan birtist einnig í líkamlegum einkennum, við bara tengjum þau ekki alltaf við hið viðvarandi álag eða þá andlegu vanlíðan sem við finnum fyrir. Þetta geta verið hlutir eins og:
⚠️ Endurteknir höfuðverkir eða vöðvaspenna – Þegar streita eykst spennast vöðvar líkamans, sérstaklega vöðvar í hálsi og herðum. Þetta getur valdið stöðugum óþægindum og verkjum.
⚠️ Svefntruflanir – Svefninn verður órólegri, fólk vaknar oftar yfir nóttina og á erfiðara með að sofna aftur. Stundum er hugurinn einnig á fullu, hugsanir hringsóla í höfðinu og geta þá komið í veg fyrir að við sofnum á ný.
⚠️ Meltingarvandamál – Uppþemba, magaverkir eða meltingartruflanir tengjast oft streitu því taugakerfið hefur bein áhrif á meltinguna.
⚠️ Einbeitingarleysi eða gleymska – Þegar við erum undir miklu álagi getur verið erfitt að halda einbeitingu og minnið fer að há okkur.
⚠️ Óþolinmæði eða pirringur án augljósrar ástæðu – Algeng viðbrögð líkamans við streitu og álagi er aukið ójafnvægi, pirringur og skapvonska, jafnvel yfir smávægilegum hlutum.
Hvað getur þú gert?
Fyrsta skrefið í streitustjórnun:
Fyrsta skrefið í streitustjórnun er að átta sig á einkennunum og merkjunum sem líkaminn sendir og spyrja sig: Hvað er að valda þessu? Einkennin eru lykillinn að orsökinni – og þegar við þekkjum orsökina, getum við unnið með rót vandans.
Við höfum nefnilaga alltaf val þegar kemur að streitu: Við getum annaðhvort BRUGÐIST VIÐ orsökinni eða SÆTT OKKUR VIÐ stöðuna eins og hún er.
Þegar við veljum að bregðast við:
Þegar við höfum stjórn á aðstæðum getum við gripið til aðgerða til að minnka streituna s.s. að:
✅ Forðast eða fjarlægja streituvaldinn – Stundum er hægt að draga sig úr aðstæðum eða fjarlægja það sem veldur óþarfa álagi.
✅ Breyta aðstæðum – Með því að ræða málin, skipuleggja sig betur eða leita lausna getum við hugsanlega dregið úr hinum streituvaldandi þáttum.
✅ Aðlaga okkur að stöðunni – Þegar breytingar eru ekki mögulegar getum við leitast við að finna leiðir til að vinna með eða aðlaga nálgun okkar þannig að aðstæður verði okkur hagfelldari.
Þegar við veljum að sætta okkur við:
Ef við getum ekki eða viljum ekki vinna með aðstæðurnar er eina leiðin að reyna að sætta sig við þær. Það þýðir ekki að við séum sammála stöðunni eða fús til að samþykkja hana sem endanlega lausn – heldur viðurkennum við að hlutirnir eru eins og þeir eru í augnablikinu.
Þegar þetta er staðan verður viðhorf okkar lykilatriðið. Með því að vinna með hugarfar okkar og stilla viðhorfið gagnvart aðstæðunum getum við dregið úr áhrifum streitunnar og öðlast betra jafnvægi. Þá er mikilvægt að reyna að láta málin ekki hafa áhrif á okkur heldur beita ákveðnu æðruleysi gagnvart stöðunni.
Lærðu að hlusta á líkamann.
Líkaminn er ótrúlega fullkominn og bendir okkur strax á þegar álagið er orðið of mikið. Þess vegna eru streitueinkenni, eða það að finna fyrir streitu, ekki veikleikamerki heldur leið líkamans til að vara okkur við svo við göngum ekki fram af okkur. Með því að hlusta á líkamann og grípa til aðgerða í tíma getum við unnið gegn langvarandi áhrifum streitu og stuðlað að betri heilsu og líðan í daglegu lífi.
Hlustar þú á viðvörunarmerki líkamans? ...þekkir þú þín streitueinkenni?
Bára Einarsdóttir,
Streituráðgjafi
Comments