top of page
Search

Skammdegið og streita – hvað gerist í líkamanum?

Útivera í dagsbirtu styður streitukerfið
Útivera í dagsbirtu styður streitukerfið

Skammdegið getur reynt á bæði líkama og huga. Þegar dagarnir styttast og myrkrið lengist breytist hormónajafnvægi líkamans og margir finna fyrir meiri þreytu, einbeitingarskorti, pirringi og jafnvel svefntruflunum. Þetta eru eðlileg viðbrögð við breyttum ytri aðstæðum og

þau hafa lífeðlisfræðilega skýringu.


Myrkrið ruglar streitukerfið

Líkaminn stillir dægursveiflur sínar eftir birtu, þar á meðal framleiðslu kortisóls. Kortisól á að hækka að morgni og lækka yfir daginn svo líkaminn geti farið í slökun þegar kvölda tekur. Þegar lítið er um dagsbirtu fer þessi sveifla að raskast. Kortisól getur haldist of hátt of lengi og líkaminn á þá erfiðara með að finna ró. Við verðum viðkvæmari, bregðumst hraðar við áreiti og pirrumst auðveldlega. Þetta er ein helsta ástæða þess að streituþol margra minnkar yfir skammdegið.

 

Dagsbirtan, sérstaklega morgunbirtan, er okkur því afar mikilvæg. Hún hjálpar líkamanum að halda reglulegri dægursveiflu, styður við eðlilega kortisólframleiðslu og eykur serótónín sem hefur róandi og jákvæð áhrif á líðan.

 

Rannsóknir sýna að aðeins 10–30 mínútur af dagsbirtu á dag, helst að morgni, geta haft margvísleg jákvæð áhrif, dregið úr streituviðbrögðum, bætt skap og orku, hjálpað til við betri svefn og stutt við heilbrigt hormónajafnvægi. Ef lítið er um birtu geta dagsbirtulampar verið góð viðbót og líkt eftir áhrifum náttúrulegrar birtu.


Hvernig getum við nýtt dagsbirtuna til streitustjórnunar?

Það þarf oft ekki mikið til að ná fram áþreifanlegum áhrifum:

  • vera daglega úti í dagsbirtu, helst fyrir hádegi

  • sameina hreyfingu og birtu í stuttum göngutúrum

  • vinna eða lesa nærri glugga

  • nota dagsbirtulampa þegar myrkrið er hvað mest

 

Þó dimmasti tími ársins geti verið krefjandi er hann líka tækifæri til að hlúa að sér og efla streitustjórnun og innra jafnvægi. Með því að nýta dagsbirtuna meðvitað, jafnvel aðeins í stutta stund á hverjum degi, geturðu haft veruleg áhrif á líðan þína og styrkt getu líkamans til að halda ró, orku og jafnvægi á þeim tíma sem myrkrið er allsráðandi.



Bára Einarsdóttir, streituráðgjafi.



Myndin er eftir Kati og fengin á Pixabay

 

 
 
 

Comments


Streita og streitustjórnun

Stórhöfða 21, 2. hæð

110 Reykjavík

Sími: 778-0775 

Netfang: streita@streita.is

  • Facebook
  • Instagram
  • LinkedIn

Streita.is © 2024  |  Allur réttur áskilinn

BE Ráðgjöf ehf., kt: 631121-0710, VSK númer: 143045

bottom of page