Komstu til baka úr góðu fríi en finnur enn fyrir þreytu, spennu eða pirringi?
- Bára Einarsdóttir
- Aug 27
- 3 min read

Þetta er alls ekki óalgengt. Margir byrjuðu haustið með væntingar um að vera úthvíld og endurnærð eftir fríið, en þegar lífið fer aftur á fullt kemur annað í ljós:
Þreytan hangir enn yfir
Yfirsýn og einbeiting eru ekki alveg til staðar
Líkaminn er stífur og spenntur
Þolinmæðin minni og stutt í pirringinn
Og þú hugsar:„Ætti mér ekki að líða betur? Átti fríið ekki að endurnæra mig og fylla mig orku.“
En þannig er það bara ekki alltaf - og það er góð skýring á því.
Streitan fer ekki alltaf í frí
Ef þú hefur verið undir álagi í langan tíma, e.t.v. mánuðum eða árum saman, þá slokknar ekki á streitukerfinu bara af því að það stendur „sumarfrí“ á dagatalinu þínu. Líkaminn er enn í viðbragðs- og varnarstöðu, jafnvel þótt þú sért í fríi.
Ósjálfráða taugakerfið (sem stýrir streituviðbragðinu) er ekki háð viljastyrk okkar, það stýrist fyrst og fremst af því hvort heilinn / líkaminn upplifir álag eða ekki. Og ef það hefur verið í stöðugum viðbragðsham til langs tíma þarf meira til en tveggja til þriggja vikna frí svo það komist í jafnvægi á ný.
Það er þess vegna sem þú vaknar uppgefin jafnvel þótt þú hafir sofið út. Eða upplifir þig fjarverandi þó þú hafir verið með fjölskyldu og vinum. Líkaminn er stöðugt að senda þér skilaboð - ekki vegna þess að eitthvað sé að þér, heldur til að reyna að fá þig til að hlusta.
Hvað gerist í líkamanum?
Þegar við erum stöðugt undir álagi virkjast drifkerfi taugakerfisins (ósjálfráða taugakerfið), þ.e. hið svokallaða „berjast eða flýja“ kerfi:
Líkaminn spennist upp
Hjartsláttur eykst
Hormónar eins og adrenalín og kortisól streyma um líkamann
Það hægist á meltingunni
Svefninn verður grynnri og óreglulegur
Þetta er allt mjög sniðugt ef þú þarft að geta brugðist hratt við til að verja þig - en þetta er skaðlegt ástand ef það varir lengi. Þegar þú svo loksins ferð í frí og það hægist um hjá þér, nær líkaminn loks að slaka á og þá finnur þú hve mikil þreytan og bugunin er orðin.
Þetta eru ekki veikleikamerki heldur eru þetta eðlileg líffræðileg viðbrögð.
Streitueinkennin eru ekki óvinur þinn – þau eru frábært viðvörunarkerfi líkamans.
Þreyta, spenna, pirringur, einbeitingarleysi og stöðugar hugsanir eru ekki merki um að þú ráðir ekki við álagið. Þetta eru skilaboð líkamans sem segja: „Það hefur verið of mikið álag, í of langan tíma. Ég þarf því að halda að þú hlustir á mig.“ Og merkin verða bara háværari ef þú reynir að hunsa þau.
Hvað getur þú gert?
Ef þú ert komin aftur til vinnu og finnur að þú ert ekki alveg í jafnvægi, þá er það ekki vegna þess að þú hafir gert eitthvað rangt. Það er einfaldlega merki um að líkaminn þinn þurfi meiri hvíld og endurheimt. Hann þarf á því að halda að þú takir eftir viðvörunarmerkjum hans (streitueinkennunum) og að þú takir þeim alvarlega. Þ.e. að þú hlustir og bregðist við áður en streitan þróast yfir í eitthvað sem erfitt er að hafa stjórn á.
Með því að hlusta á líkamann og gefa honum hvíld og endurnæringu færðu tækifæri til að byggja þig upp og öðlast jafnvægi á ný.
Viltu fá stuðning?
Ég hjálpa fólki sem hefur verið undir langvarandi álagi og vill öðlast færni til að takast betur á við aðstæður, vinna að streitulosun og fá verkfæri sem nýtast til framtíðar. Aðferðafræðin sem ég vinn eftir er skipulögð, persónuleg og einstaklingsmiðuð og hún er sannreynd og studd af rannsóknum. Með faglegri aðstoð getur þú komist í jafnvægi á ný og náð betri stjórn á aðstæðum þínum.
Hafðu samband á streita@streita.is og pantaðu ókeypis símtal til að skoða hvort og hvernig ég get stutt þig.
Bára Einarsdóttir, streituráðgjafi.







Comments