Streituvaldar í starfi og leiðir til að draga úr áhrifum þeirra.
- Bára Einarsdóttir
- Jan 26
- 4 min read
Updated: Jan 31

Streita í starfi er eitt algengasta vandamál sem starfsfólk glímir við í dag og jafnframt ein algengasta ástæða þess að fólk leitar læknis. Streitan getur haft áhrif bæði á líkamlega og andlega heilsu auk þess sem hún dregur úr framleiðni og skapar neikvæða menningu á vinnustöðum. Til að bregðast við þessu er mikilvægt að þekkja helstu áhrifaþætti starfstengdrar streitu og hvað hægt er að gera til að draga úr henni. Eftirfarandi eru 10 mikilvægustu áhrifaþættirnir:
1. Of mikið vinnuálag
Of mikið vinnuálag er algengasti streituvaldurinn á vinnustöðum og hefur oft margþætt áhrif á starfsfólk. Langir vinnudagar, of mörg verkefni og vaxandi krafa um að vera "alltaf til taks" valda því að jafnvægi milli vinnu og einkalífs raskast. Þetta er ekki aðeins slæmt fyrir starfsfólk heldur einnig fyrir vinnustaðinn, þar sem of mikið vinnuálag hefur tilhneigingu til að draga úr framleiðni, trufla teymisvinnu og hafa neikvæð áhrif á árangur.
Starfsfólk er oft máttvana gagnvart þessu, en skýr forgangsröðun, raunhæf markmið og góð dreifing ábyrgðar og verkefna eru lykilatriði í stjórnun til að vinna gegn þessu.
2. Óljósar væntingar og óskýr hlutverk
Skortur á skýrum skilaboðum um vinnutilhögun, ábyrgðarsvið og verkaskiptingu getur valdið ruglingi og auknu álagi. Því er mikilvægt að hlutverk og ábyrgðarsvið séu skýr og að stjórnendur veiti markvissan stuðning og leiðbeiningar til að tryggja að starfsfólk geti staðið undir þeim væntingar sem til þess eru gerðar.
3. Léleg stjórnun
Slæmar eða lélegar stjórnunaraðferðir auka á vanlíðan starfsfólks og draga úr árangri. Góðir stjórnendur eru til staðar, hlusta og veita uppbyggjandi endurgjöf sem byggir á gagnkvæmum skilningi. Einnig er mikilvægt að áhersla sé á jafnrétti og gagnsæi.
4. Litið sjálfstæði í starfi
Starfsfólk sem hefur litla stjórn yfir starfi sínu finnur oft fyrir aukinni streitu. Sjálfstæði í starfi og tækifæri til að taka ákvarðanir geta bætt líðan og aukið afkastagetu. Stjórnendur ættu að tryggja að starfsfólk fái tækifæri til þátttöku í ákvörðunum sem snerta störf þeirra og verkefni.
5. Skortur á stuðningi
Litill eða ónógur stuðningur frá stjórnendum eða samstarfsfólki getur aukið óöryggi starfsfólks og stuðlað að vanmætti. Mikilvægt er að efla samvinnu og skapa menningu þar sem gagnkvæmur stuðningur er lykilatriði. Hvatning og viðurkenning fyrir vel unnin störf eru áhrifaríkar leiðir til að auka starfsánægju.
6. Einhæf vinna eða skortur á áskorunum
Einhæfni í starfi veldur gjarnan leiða hjá starfsfólki, dregur úr starfsánægju og getur haft neikvæð áhrif á starfsanda. Tækifæri til að taka þátt í spennandi verkefnum sem byggja á þekkingu og hæfni starfsfólks geta dregið úr streitu og gjörbreytt upplifun þeirra af starfinu.
7. Léleg samskipti og samskiptavandamál
Skortur á upplýsingaflæði, baktal og misskilningur milli samstarfsfólks geta skapað verulega streitu. Hreinskiptni, reglulegir fundir og opinská samskipti eru nauðsynleg til að tryggja gott vinnuumhverfi. Stjórnendur ættu að fylgjast vel með mögulegum samskiptavandamálum og bregðast hratt við núningi eða ágreiningi. Með því að leysa slík mál á markvissan hátt er hægt að koma í veg fyrir vantraust og stuðla að menningu sem einkennist af trausti og uppbyggilegum samskiptum.
8. Togstreita milli starfsfólks
Árekstrar og togstreita milli samstarfsfólks geta haft alvarleg áhrif á starfsanda og skaðað vinnuumhverfið. Slíkar aðstæður leiða oft til vantrausts, skorts á samvinnu og minnkandi starfsánægju. Til að koma í veg fyrir að togstreita þróist út í stærri vandamál er nauðsynlegt að stjórnendur grípi inn í á réttum tíma. Með því að takast markvisst á við togstreitu er hægt að lágmarka neikvæð áhrif hennar, efla traust og stuðla að góðum samstarfsháttum.
9. Slæm vinnustaðamenning
Vinnustaðamenning sem byggir á vantrausti, háði eða mismunun er niðurbrjótandi fyrir starfsfólk. Mikilvægt er að koma fljótt auga á slíka hegðun og vinna markvisst að því að breyta henni. Jákvæð menning sem byggir á trausti, gagnsæi og samvinnu er lykilatriði fyrir vellíðan.
10. Lítið starfsöryggi
Ótti við uppsagnir eða ótryggar framtíðarhorfur getur valdið mikilli spennu og vanlíðan hjá starfsfólki. Slík óvissa hefur tilhneigingu til að draga úr starfsánægju, minnka tryggð við vinnustaðinn og hafa neikvæð áhrif á afköst og árangur. Stjórnendur ættu því að leggja sérstaka áherslu á góða upplýsingamiðlun og uppbyggjandi endurgjöf til að draga úr óvissu og ótta og auka öryggi starfsfólks.
Hvernig má draga úr áhrifum starfstengdrar streitu?
Stuðla að opnum og heiðarlegum samskiptum: Búa til umhverfi þar sem starfsfólk getur tjáð sig frjálslega án ótta við ámæli.
Veita starfsmönnum tækifæri til þátttöku í ákvörðunum: Tryggja að starfsfólk hafi rödd í ákvörðunum sem hafa áhrif á dagleg störf þeirra.
Tryggja aðgengi að réttum úrræðum og stuðningi: Veita starfsfólki nauðsynlegar úrræði og leiðsögn til að sinna starfi sínu á árangursríkan hátt.
Skipuleggja vinnuálag með sanngjörnum hætti: Gæta þess að álagi sé dreift jafnt og að enginn þurfi að bera óhóflega mikla vinnubyrgði eða ábyrgð.
Setja raunhæf markmið fyrir verkefni og ábyrgð: Tryggja að markmið séu skýr, raunhæf og náist innan viðeigandi tímaramma.
Með því að greina helstu áhrifaþætti streitu og innleiða markvissar lausnir er hægt að skapa vinnuumhverfi sem styður við vellíðan starfsfólks og heldur streitu í lágmarki. Jákvæð vinnustaðamenning, hæfilegt vinnuálag, sanngjörn dreifing ábyrgðar og traust og uppbyggileg samskipti eru lykillinn að því að ná markmiðum og tryggja árangur í starfi. Slíkt vinnuumhverfi dregur einnig úr streitu og stuðlar að góðri líðan starfsfólks.
Photo by Elisa Ventur on Unsplash







Comments