top of page
Search

Fer vinnan með þér í sumarfrí?

Updated: Jul 1

ree

Sumarið á að vera tími fyrir hvíld og endurnæringu og flestir hlakka til að fara í frí og hlaða batteríin. Þrátt fyrir það eru margir sem upplifa mikla streitu í sumarfríinu. Sumum finnst jafnvel betra að kúpla sig ekki alveg út svo álagið verði ekki of mikið þegar þeir koma til baka. Auk þess eru mörg störf þess eðlis að erfitt að stimpla sig alveg út.


Hvers vegna er svona erfitt að slökkva á vinnunni?

Við lifum í menningu þar sem afköst og aðgengi eru í forgrunni. Þegar vinnudagurinn er ekki lengur bundinn við skrifborð og klukku verður erfiðara að setja mörk – jafnvel í sumarfríi. Snjalltækin gera okkur sítengd og vinnan, sem við erum stanslaust með í vasanum, verður hluti af hugsunum okkar og vana.


Það er ekkert óeðlilegt við það að hugurinn haldi áfram að vinna, ekki síst ef þú hefur vanist miklu álagi, en það er ekki þar með sagt að þú getir ekki haldið álaginu niðri og notið þess að vera í fríi. Það er þó fyrst og fremst undir þér komið að stýra því hve mikið pláss vinna fær í fríinu þínu.


Hvað getur þú gert?

  1. Undirbúðu fríið vel. Forgangsraðaðu verkefnum áður en þú ferð og kláraðu þau verkefni sem þú þarft að sinna.

  2. Úthlutaðu verkefnum og gerðu aðra tímabundið ábyrga fyrir ákveðnum málum. Það léttir ekki aðeins á þér heldur stuðlar einnig að samvinnu og teymisábyrgð.

  3. Láttu vita af fjarveru þinni. Upplýstu yfirmenn, samstarfsfólk og viðskiptavini um hvenær og hve lengi þú ert í fríi og hverjir leysa þig af á meðan.

  4. Settu upp „out of office“ skilaboð á tölvupóstinn þinn og bentu á staðgengla á meðan þú ert í burtu.

  5. Takmarkaðu vinnutengd samskipti. Skoðaðu tölvupóst og önnur samskiptaforrit aðeins einu sinni til tvisvar á dag á fyrirfram ákveðnum tímum og haltu þig svo frá þeim þess á milli. Ef allir vita hvernig þú ætlar að haga málum, hvernær þú kíkir á tölvupóstinn og svarar áríðandi fyrirspurnum getur þú dregið úr truflunum og notið þess að vera í fríi.

  6. Stilltu vinnutengdum símtölum í hóf og reyndu að vísa málum til staðgengla þinna eins mikið og mögulegt er.

  7. Leyfðu þér að vera í fríi og njóta. Þannig endurhleður þú batteríin og tryggir að þú komir til baka endurnærð(ur) með fulla orku.


Kæruleysi eða sjálfsumhyggja?

Að draga úr vinnutengdum samskiptum og skyldum í fríi er ekki merki um kæruleysi. Þvert á móti sýnir það gott fordæmi og virðingu fyrir sjálfum sér. Vinnan mun alltaf gera kröfur á þig og því meiri tíma sem þú veitir henni í fríinu, því meiri tíma tekur hún frá þér.

Stýrðu væntingum, settu mörk og gefðu þér leyfi til að hvíla þig og edndurnærast – þannig getur þú notið frísins, dregið úr streitu og mætt aftur til vinnu með fulla orku og einbeitingu.


Ef þér finnst erfitt að slökkva á vinnunni, nærð ekki að slaka á og losa um streituna í fríinu eða vilt læra leiðir til að draga úr streitu og ná betra jafnvægi, sendu mér fyrirspurn eða pantaðu frítt símtal á streita@streita.is. Ég styð þig í að takast á við streitu og tileinka þér streitustjórnun til framtíðar.


Bára Einarsdóttir, streituráðgjafi

 
 
 

Comentarios


Streita og streitustjórnun

Stórhöfða 21, 2. hæð

110 Reykjavík

Sími: 778-0775 

Netfang: streita@streita.is

  • Facebook
  • Instagram
  • LinkedIn

Streita.is © 2024  |  Allur réttur áskilinn

BE Ráðgjöf ehf., kt: 631121-0710, VSK númer: 143045

bottom of page