Er of mikið álag á þínum vinnustað?
- Bára Einarsdóttir
- Feb 16
- 3 min read
Einkennin sem þú verður að þekkja!

Streita á vinnustað er ekki bara tilfinningalegt álag á starfsfólk – hún hefur raunveruleg áhrif á framleiðni, samskipti og heilsu starfsmanna og hún kostar fyrirtæki verulega fjármuni. Samkvæmt alþjóðlegum rannsóknum getur langvarandi streita leitt til meiri starfsmannaveltu, aukinna veikindafjarvista og minni afkasta. Evrópska vinnuverndarstofnunin hefur einnig bent á að streita og streitutengd veikindi séu eitt helsta vandamál fyrirtækja í dag og að fyrirtæki sem grípa til aðgerða sjá oft marktækan árangur.
En hvernig getur starfsfólk greint hvort vinnustaðurinn þeirra sé undir of miklu álagi? Hvaða einkenni ættu stjórnendur og starfsmenn að vera vakandi fyrir?
1. Neikvæðni og spenna í samskiptum
Eitt af fyrstu merkjum streitu á vinnustað eru breytingar á samskiptum. Starfsfólk sem áður naut góðs samstarfs sýnir nú merki um pirring, skort á áhuga eða minnkaða þátttöku í umræðum. Fundir verða stirðir, neikvæðni kraumar undir yfirborðinu og fólk dregur sig í hlé. Þegar starfsfólk forðast samskipti eða hættir að leggja sitt af mörkum, getur það verið skýr vísbending um að vinnustaðurinn sé undir miklu álagi.
2. Aukin starfsmannavelta og tíðari veikindi
Ef starfsfólk er sífellt að leita á önnur mið er það skýr vísbending um að eitthvað sé ekki eins og það á að vera. Þegar fólki líður ekki vel í vinnunni, hefur það bein áhrif á afköst og vinnugleði og getur bæði komið fram í langvarandi streitu og auknum veikindafjarvistum.
Ástæður þessa geta verið margar, en oft tengjast þær vinnuumhverfi, samskiptum, kröfum eða litlum stuðningi frá stjórnendum. Þegar starfsmannavelta eykst veldur það einnig auknu álagi á þá sem eftir eru, sem síðan getur orðið að vítahring streitu og jafnvel leitt til kulnunar.
3. Spenna og ágreiningur á milli starfsmanna
Mikið vinnuálag getur dregið úr þolinmæði og sveigjanleika í samskiptum. Ef átök og ágreiningur aukast, getur það verið merki um að streitan sé farin að hafa áhrif á andlega líðan starfsfólks. Streita getur einnig dregið úr samkennd og minnkað samstarfsvilja sem svo hefur bein áhrif á vinnustaðamenningu fyrirtækisins.
4. Léleg forysta eykur streitu
Stjórnendur gegna lykilhlutverki í því að skapa vinnuumhverfi þar sem starfsfólk finnur fyrir öryggi og stuðningi. Ef skýr stefna og markmið eru ekki til staðar, eða ef starfsfólk fær ekki viðeigandi endurgjöf og leiðsögn, eykst óvissan í vinnunni. Ef samskipti við stjórnendur eru óskýr eða ekki af góðum gæðum, getur það einnig aukið streituna verulega.
Góð forysta felst ekki í að láta hlutina „reddast“ – heldur að skapa skýra sýn og styðjandi vinnuumhverfi.
5. Óraunhæft vinnuálag og tímapressa
Það koma annasöm tímabil í öllum störfum, en þegar langvarandi álag og sífelld tímapressa verða norm, eykur það mjög á vanlíðan starfsfólks. Ef fólk finnur að það getur aldrei klárað verkefni sín án þess að fórna persónulegum tíma sínum, eða ef forgangsröðun verkefna er óljós, eykur það enn á streituna. Óraunhæfar væntingar, óskýr skilaboð og of mikil vinnutilætlun slekkur auk þess á eldmóði starfsfólks frekar en að auka framleiðni.
6. Minnkandi afköst og lítil sköpunargleði
Langvarandi streita dregur úr getu starfsmanna til að hugsa skýrt og skapa nýjar lausnir. Ef mistök verða tíðari, frumkvæði minnkar og fólk „gerir bara hlutina eins og þeir hafa alltaf verið gerðir“ án þess að leita nýrra leiða, getur það verið vísbending um að vinnustaðurinn sé undir of miklu álagi.
Hvað er til ráða?
Stjórnendur þurfa að vera meðvitaðir um þessi merki, taka þau alvarlega og grípa til aðgerða áður en streitan verður of mikil eða stjórnlaus. Opin samskipti, regluleg fræðsla og raunhæfar aðgerðir til að minnka streitu geta skipt sköpum og því fyrr sem stigið er inn því betra. Mikilvægt er að:
Greina rót vandans – Hvaðan kemur streitan? Er hún tengd verkefnaálagi, samskiptum eða skorti á stuðningi?
Opna á umræðu um málið – Hvetja starfsfólk til tjá sig um áhyggjur sínar og taka mark á viðbrögðum þeirra.
Tryggja jafnvægi milli vinnu og einkalífs – Bjóða upp á sveigjanlegan vinnutíma, stuðla að vinnustaðamenningu sem metur hvíld og endurheimt.
Setja skýr markmið og væntingar – Starfsfólk þarf að vita til hvers er ætlast til af því og fá viðeigandi endurgjöf og stuðning.
Bjóða upp á fræðslu um streitu og streitustjórnun – Námskeið og ráðgjöf um heilbrigða streitustjórnun geta gert gæfumuninn.
Streita á vinnustað er ekki bara vandamál einstaklingsins – hún er kerfisbundið viðfangsefni sem kallar á markvissar aðgerðir. Fyrirtæki sem bregðast snemma við, hlúa að jákvæðri vinnustaðamenningu og fjárfesta í vellíðan starfsfólksins, byggja upp sterkari, ánægðari og afkastameiri vinnustað til framtíðar. Ávinningurinn er skýr: minni starfsmannavelta, færri veikindafjarvistir og meiri afköst.
Spurningin er: Hvað getur vinnustaðurinn þinn gert í dag til að draga úr streitu á morgun?
17. febrúar 2025
Bára Einarsdóttir, streituráðgjafi
Comentários