top of page
Search

Að missa vinnuna - Streita og sorg í kjölfar uppsagna


ree

Í september bárust Vinnumálastofnun fimm tilkynningar um hópuppsagnir. Alls misstu 208 starfsmenn vinnuna. Ofan á það bættust svo um 400 manns þegar flugfélagið Play hætti starfsemi. Þegar við lesum slíkar fréttir er hætt við að við sjáum aðeins tölurnar – en á bak við þær eru einstaklingar með líf, fjölskyldu, skuldbindingar og vonir sem þurfa að takast á við mikla óvissu, fjárhagslegar áhyggjur og djúp tilfinningaleg áhrif.

 

Að missa vinnu er ekki aðeins fjárhagslegt áfall, heldur hefur það djúpstæð áhrif á sjálfsmynd, sjálfstraust og tilfinningalega líðan. Starfið er oft stór hluti af sjálfsmynd okkar, það gefur lífinu rútínu, tilgang og félagsleg tengsl. Þegar það hverfur upplifa margir bæði streitu og sorg.

 

 

Streitan sem fylgir uppsögnum

Óvissan er einhver mesti streituvaldur sem fólk upplifir. Hugurinn fer á fullt:

  • „Hvað geri ég nú?“

  • „Hvernig borgum við reikningana?“

  • „Fæ ég vinnu á ný – og hvenær?“

 

Þegar slíkar hugsanir taka yfir kveikir líkaminn á streituviðbragðinu. Streituhormón flæða um líkamann, hjartsláttur eykst, öndunin verður grynnri, þráðurinn styttist og svefninn truflast. Margir finna einnig fyrir auknum kvíða, pirringi eða einbeitingarskorti.

 

Ef streitan verður viðvarandi, truflar hún huga okkar og gerir það erfiðara að stíga næstu skref. Hún gerir það að verkum að heilinn er stöðugt á varðbergi, eins og hætta sé yfirvofandi, og það dregur úr hæfni okkar til að sjá lausnir, taka skynsamlegar ákvarðanir eða jafnvel að skrifa góða starfsumsókn.

 

Góð streitustjórnun er því afar mikilvæg á þessum tímapunkti, að ná jafnvægi og stjórn á ný og finna kraftinn til að horfa fram á veginn.

 

 

Sorgin sem fylgir missinum

Við tengjum sorg gjarnan eingöngu við andlát, en sorg getur fylgt alls konar missi – það á líka við þegar fólk missir vinnuna. Þá er um að ræða:

  • Missi á daglegri rútínu,

  • Slit á félagslegum tengslum – kaffistofusamtölin og samstarfið hverfur,

  • Breytingar á sjálfsmynd – starfstitillinn sem oft var stór hluti af okkur hverfur.

 

Viðbrögðin eru einstaklingsbundin. Sumir upplifa djúpa depurð og orkuleysi, aðrir finna fyrir reiði, höfnun eða jafnvel skömm, og enn aðrir fara beint í aðgerðaham til að finna nýjar leiðir.

 

Það sem skiptir máli er að þessi viðbrögð eru öll eðlileg. Sorg er ekki línulegt ferli heldur sveiflukennd reynsla sem getur tekið á sig ólíkar myndir hjá hverjum og einum. Tilfinningar geta komið í bylgjum og þær geta valdið miklu streituálagi í líkamanum.

 

 

Hvað hjálpar á þessum tíma?

Það er engin ein rétt leið, en nokkur atriði skipta máli:

  • Að viðurkenna tilfinningarnar: það er eðlilegt að upplifa sorg og finna fyrir streitu

  • Að leita samtals: við fjölskyldu, vini eða fagfólk. Að bera áhyggjurnar einn eykur álagið.

  • Að hlúa að líkama og huga: regluleg hreyfing, svefn og hollt mataræði styrkja okkur til að takast á við erfiða tíma.

  • Að halda í smá rútínu: jafnvel einföld verkefni eins og að fara út að ganga á hverjum degi geta veitt festu.

  • Að vinna með streituna: meðvitund um eigin viðbrögð og einföld verkfæri til að stuðla að jafnvægi og ró geta skipt sköpum.

  • Að sjá framtíðina: þó það sé erfitt í byrjun, kemur að því að fókusinn færist frá missinum yfir í ný tækifæri og nýtt hlutverk.

 


Að sækja stuðning

Að missa vinnuna er einn af stærstu streituvöldum sem við upplifum. Það er hins vegar hægt að vinna með þessa streitu, skapa ró og öðlast jafnvægi til að verða betur í stakk búin að takast á við framtíðina. Með faglegri aðstoð, markvissri streitustjórnun og einföldum verkfærum má ná jafnvægi og finna nýja leið fram.

 

Ef þú eða starfsfólkið þitt stendur frammi fyrir álagi í tengslum við atvinnumissi getur verið gagnlegt að leita aðstoðar. Stuðningur í streitustjórnun hjálpar fólki að hlúa að sér, vinna úr áfallinu og auðveldar að sjá nýja möguleika og taka næstu skref.


Þér er velkomið að hafa samband ef þú vilt stuðning eða fræðslu fyrir þig eða starfsfólk þitt – það getur skipt sköpum.


Bára Einarsdóttir, streituráðgjafi


Mynd: fengin af Freepik

 
 
 

Comments


Streita og streitustjórnun

Stórhöfða 21, 2. hæð

110 Reykjavík

Sími: 778-0775 

Netfang: streita@streita.is

  • Facebook
  • Instagram
  • LinkedIn

Streita.is © 2024  |  Allur réttur áskilinn

BE Ráðgjöf ehf., kt: 631121-0710, VSK númer: 143045

bottom of page